top of page

Freyja hlýtur námsstyrk frá Styrktarsjóði aldraðra

Freyja Hilmarsdóttir íþróttafræðingur hlýtur styrk frá Styrktarsjóði aldraðra / LEB – Landssamband eldri borgara. Freyja Hilmarsdóttir, 24 ára, útskrifaðist með BSc gráðu í Íþróttafræði frá Háskólanum í Reykjavík vorið 2022. Hún valdi grunnnám í Íþróttafræði með það í huga að vilja hjálpa þeim sem eiga erfitt með að hreyfa sig sökum sjúkdóma eða verkja. Þegar Freyja var 10 ára var hún greind með Crohn’s sjúkdóm og um 15 ára fór hún að finna fyrir verkjum í kringum mjaðmasvæðið, sem síðar leiddi til þess að fæturnir urðu veikburða og gerði það að verkum að erfitt var fyrir hana að ganga. Strax eftir útskrift bauðst Freyju að taka við vatnsleikfimi, hjá Kópavogsbæ, sem er opnin öllum, en flestir iðkendur eru í kringum eftirlaunaaldurinn. Eftir að hafa kynnst þjálfun hjá þessum aldurshópi fór hún að leita eftir frekari reynslu í þjálfun fyrir 60+ og tók þá að sér þjálfun hjá nokkrum mismunandi hópum eldri borgara.

Helgi Pétursson afhendir Freyju Hilmarsdóttur námsstyrk úr Styrktarsjóði aldraðra. Ljósm: LEB/Ketill Helgason
Helgi Pétursson afhendir Freyju Hilmarsdóttur námsstyrk úr Styrktarsjóði aldraðra. Ljósm: LEB/Ketill Helgason

Hún fór fljótt að taka eftir því af eigin raun hversu mikil áhrif hreyfing getur haft á líf fólks á efri árum og þá jókst áhugi hennar á styrktarþjálfun fyrir eldra fólk. Eftir að hafa ákveðið að sérhæfa sig í þjálfun fyrir 60 ára og eldri, sótti hún um mastersnám í Styrktar- og þolþjálfun (e. Strength and Conditioning). Þetta nám er ekki kennt á Íslandi og er Freyja því á leiðinni til Englands næsta haust til þess að stunda þetta nám við Loughborough University. Námið er sett upp sem þrjár annir yfir eitt ár, og lýkur náminu með hönnun og framkvæmd rannsóknar á sviði þjálfunar, sem hún mun gera í tengslum við áhrif þjálfunar eldri borgara.

LEB – Landssamband eldri borgara / Styrktarsjóður aldraðra hefur veitt Freyju námsstyrk.

Bæði Freyja og stjórn LEB telur að rannsóknarefnið hennar geti skilað aukinni þekkingu á sviði þjálfunar eldri borgara og í framhaldi af því væntanlega skilað auknum lífsgæðum hjá eldra fólki. LEB óskar Freyju velfarnaðar í námi.

  • Styrktarsjóður aldraðra var stofnaður 1984 af Ingibjörgu Þórðardóttur (f.19.08.1903 – d.28.03.2003). Markmið sjóðsins er að auka þekkingu á þörfum aldraðra og styrkja hvers konar gagnlegar framkvæmdir, starfsemi og þjónustu í þágu aldraðra, eins og segir í stofnskrá.


52 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentários


bottom of page