top of page

1. UM VERKEFNIÐ BJARTUR LÍFSSTÍLL

EFNISYFIRLIT

1. Uppspretta verkefnisins 
2. Bjartur lífsstíll 
3. Markmið 

4. Verkfærakista Bjarts lífsstíls

5. Tengiliðir og samvinna

    5.1 Sveitarfélagið

    5.2 Félag eldri borgara

    5.3 Íþróttahéruð

    5.4 Íþróttafélög

    5.5 Heilsugæslan

    5.6 Önnur heilsueflandi starfsemi
6. Ávinningur 
    6.1 Samfélagið 
    6.2 Iðkandinn 

1. Uppspretta verkefnisins 

Í janúar 2021 skilaði starfshópur, skipaður Heilbrigðisráðherra, skýrslu með tillögum um fyrirkomulag samstarfsverkefna í heilsueflingu eldra fólks með það að markmiði að gera eldra fólki kleift að búa í heimahúsum eins lengi og kostur er.

 

Í kjölfar skýrslunnar lagði Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið til styrk til Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og Landssamband eldri borgara (LEB). Styrkurinn var nýttur til að ráða sinn hvorn starfsmanninn fyrir samtökin tvö og setja af stað sameiginlegt verkefni sem stuðlar að heilsueflingu eldra fólks. Starfsmaður á vegum ÍSÍ er Margrét Regína Grétarsdóttir íþróttafræðingur, og starfsmaður á vegum LEB er Ásgerður Guðmundsdóttir sjúkraþjálfari og íþróttakennari.

 

Störf verkefnastjóra er að aðstoða sveitarfélög um land allt við að innleiða heilsueflingu til framtíðar. Í fyrsta lagi er lögð áhersla á námskeið, fræðslu og annan faglegan stuðning til þjálfara eftir því sem við á og annarra sem koma að heilsueflingu eldra fólks. Í öðru lagi er lögð áhersla á skipulagða þjálfun og aukið heilsulæsi hjá fólki 60 ára og eldra með tilliti til hreyfingar, næringar og annarra þátta sem geta aukið heilsu og vellíðan þeirra. Í þriðja lagi er lögð áhersla á þverfaglega samvinnu innan sérhvers sveitarfélags.

Snemma í ferlinu var verkefninu gefið nafnið Bjartur lífsstíll, með það að leiðarljósi að hreyfing verði að lífsstíl hjá eldra fólki. Markhópur verkefnisins Bjartur lífsstíll er 60+ af þeirri ástæðu að félög eldri borgara eru opin öllum einstaklingum 60 ára og eldri en einnig eru þau opin mökum þeirra þrátt fyrir að þeir hafi ekki náð 60 ára aldri.

2. Bjartur lífsstíll 

Bjartur lífsstíll er einskonar verkfærakista fyrir þau sveitarfélög sem sjá þörfina fyrir aðstoð, líkt og að búa til nýtt hreyfiúrræði eða efla það góða starf sem nú þegar er í gangi. Það skal sérstaklega tekið fram að verkefnið Bjartur lífsstíll er ekki hreyfiúrræði út af fyrir sig og því síður er það hugsað sem samkeppni við hreyfiúrræði sem eru nú þegar til staðar.

Hlutverk verkefnastjóra er að gera stöðuyfirlit á hreyfingu sem er í boði fyrir eldra fólk á landsvísu, skipuleggja fundi og mynda stýrihópa með tengiliðum er koma að heilsueflingu eldra fólks og vekja athygli á mikilvægi þess að bjóða upp á hreyfingu fyrir eldra fólk.

3. Markmið 

  • Veita þjálfurum og öðrum sem koma að heilsueflingu eldra fólks faglegan stuðning.
     

  • Stuðla að betri lýðheilsu eldra fólks á landsvísu með því að auka heilsulæsi í gegnum hreyfingu og fræðslu.
     

  • Að varanlegt hreyfiúrræði standi öllu fólki 60 ára og eldra til boða í helstu byggðarkjörnum.

4. Verkfærakista Bjarts lífsstíls

Hlutverk verkfærakistunnar er að veita aðgang að efni og gögnum sem styrkir þjálfara og aðra sem koma að heilsueflingu eldra fólks. Innihaldsefni sem er að finna inn á www.bjartlif.is er sem dæmi; hvað þarf að hafa í huga varðandi þjálfun eldra fólks, innleiðing á nýju hreyfiúrræði, hvernig má nýta mismunandi aðstöðu og innviði sveitarfélagsins, framkvæmd mælinga, hvernig má auka heilsulæsi með fræðslu og fleira.

Þá er heimasíða Bjarts lífsstíls hugsuð sem einskonar upplýsingamiðstöð fyrir alla sem hafa gagn af málefnum er tengjast heilsueflingu eldra fólks. Í grófum dráttum heldur heimasíðan utan um nokkra þætti.

Í fyrsta lagi yfirlit yfir hreyfingu sem er í boði á landsvísu eftir póstnúmerum. Grundvöllur fyrir upplýsingar um starfandi hreyfiúrræði er afar mikilvægur og þarf að vera bæði sýnilegur og aðgengilegur svo að eldra fólk hafi tækifæri til að stunda hreyfingu í sínu nærumhverfi.

Í öðru lagi eru gögn og efni framsett í fjölbreyttum handbókum sem skiptast í þrjá flokka; fyrir þjálfara, fyrir stýrihópa sveitarfélaga og fyrir 60+. Hver flokkur afmarkar fræðsluefni og annan faglegan stuðning sem á við um tilheyrandi flokk.

Handbækur fyrir þjálfara: Leggur áherslu á að bæta öryggiskennd viðkomandi til að sjá um eða taka að sér hreyfingu fyrir eldra fólk. Víða er vöntun á starfsfólki þrátt fyrir menntun og fyrri störf. Með handbókunum er hægt að afla sér upplýsinga, fræðast og nýta efni til þjálfunar á einfaldan máta.

Handbók fyrir stýrihópa sveitarfélagsins: Leggur áherslu á fræðslu varðandi utanumhald og rekstur hreyfiúrræða sem og leiðavísir með gátlistum sem mun koma sér að góðum notum ef hugur er á að setja nýtt hreyfiúrræði á laggirnar eða efla starfið sem fyrir er.

Handbækur fyrir 60+: Leggur áherslu á fræðslu um heilsutengd málefni þar sem farið er m.a. inn á hreyfingu, næringu, svefn og rétta líkamsbeitingu sem er aðlagað að markhópnum. Einnig er að finna æfingamyndbönd og heimaæfingar sem eldra fólk getur fylgt eftir.

Allt efni inn á www.bjartlif.is má nýta endurgjaldslaust. Fyrir hönd ÍSÍ og LEB vona verkefnastjórar að verkfærakista Bjarts lífsstíls geti nýst sem flestum og orðið hvatning fyrir sveitarfélög til að efla sitt starf fyrir eldra fólk.

 

5. Tengiliðir og samstarf 

Áhersla er lögð á þverfaglega samvinnu innan sérhvers sveitarfélags, það er að samvinna geti orðið milli sveitarfélagsins, íþróttahreyfingarinnar, félags eldri borgara og heilsugæslunnar, svo dæmi séu nefnd. Æskilegt er að aðilar sem koma að heilsueflingu í samfélaginu myndi stýrihóp. Það gætu sem dæmi verið starfsmenn sveitarfélagsins, svo sem úr velferðarráði, öldungaráði, íþrótta-og tómstundaráði, félagsþjónustu, dvalarheimilum, íþróttakennarar, sjúkraþjálfarar, íþróttafræðingar, þjálfarar og aðrir sem átt gætu í hlut. Þá er einnig æskilegt að vera í samvinnu við líkamsræktarstöðvar og íþróttamannvirki eins og sundhallir í sér hverju sveitarfélagi til að skapa jákvætt umhverfi og efla varanlegt fyrirkomulag heilsueflingar.

Það er samfélagsleg ábygð okkar allra að fylgja því eftir að núverandi hreyfiúrræði vaxi og dafni, og sjá til þess að önnur verði til sem munu þrífast til langframa. 

5.1 Sveitarfélagið

Mikilvægt er að starfsfólk sveitarfélagsins sem kemur að heilsueflingu komi saman að fundarborði þar sem hlutverk sveitarfélagsins er meðal annars að sjá um að veita grunnþjónustu á borð við rekstur félagsþjónustu, sundlauga, áhaldahúss o.fl. fyrir íbúa sveitarfélagsins, auk þess að sinna íþróttum- og tómstundum. Innan hvers sveitarfélags eru alls kyns nefndir sem æskilegt er að boða til fundar og ræða heilsueflingu eldra fólks, svo sem aðilar úr bæjarráði, öldungarráði, íþrótta- og tómstundanefnd, verðferðarráði, fjölskyldu- og fræðslusviði, svo eitthvað sé nefnt.

Sveitarfélög hafa sjálf frumkvæði að því að gerast Heilsueflandi samfélag og vinna þá markvisst lýðheilsustarf, í samræmi við markmið og leiðarljós Heilsueflandi samfélags með stuðningi Embætti landlæknis. Markmið Heilsueflandi samfélags er að styðja samfélög í að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Það að bjóða upp á hreyfiúrræði fyrir eldra fólk í sveitarfélaginu fellur inn í gátlista Heilsueflandi samfélags [1].

 

5.2 Félag eldri borgara

Aðildarfélög eldri borgara sem tilheyra undir Landssambandi eldri borgara eru 55 talsins og dreifð víðsvegar um landið. Hlutverk félag eldri borgara er að gæta hagsmuna eldra fólks og stuðla að menningarlífi, meðal annars með skemmtanahaldi, fræðslu af ýmsum toga, margþættri heilsueflingu og hlúa að hverskonar áhugamálum [2].

 

Því er lykilatriði að vera í samskiptum við félag eldri borgara í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Þar sem að formenn og aðrir stjórnendur félagsins geta lagt sitt að mörkum við að efla varanlegt fyrirkomulag heilsueflingar. Einnig skal hafa í huga að félag eldri borgara hafa oft á tíðum húsnæðisaðstöðu til afnota sem hægt væri að nýta. Þá er einnig hægt að vera í góðri samvinnu með félagi eldri borgara til að auglýsa og nálgast þátttakendur. Þar sem félagið er oft á tíðum með skipulagða dagskrá fyrir félagsmenn.

 

5.3 Íþróttahéruð

Samkvæmt íþróttalögum er landinu skipt í íþróttahéruð. Í hverju íþróttahéraði er eitt héraðssamband/íþróttabandalag allra íþróttafélaga í héraðinu til að vinna að hinum ýmsum hagsmunamálum þeirra. Alls eru 25 íþróttahéruð á landinu, skipt í 18 héraðssambönd og 7 íþróttabandalög.

 

Í hverju íþróttahéraði er formaður eða framkvæmdarstjóri sem sér um upplýsingaveitu íþróttahreyfingarinnar á þeim landshluta, það er í samvinnu með íþróttafélögum nærliggjandi sveitarfélaga [3]. Því er æskilegast að vera í samskiptum við aðila íþróttahéraðsins sem að sveitarfélagið tilheyrir.

 

5.4 Íþróttafélög

Íþróttafélög ættu að vera opin öllum samfélagshópum og bjóða alla iðkendur velkomna, óháð getustigi, aldri og kyni. Margir kostir fylgja því að bjóða upp á þjálfun eldra fólks innan íþróttafélagana. Með því að opna íþróttahúsin fyrir eldri fólki gefst þeim kostur á að vera partur af íþróttahreyfingunni. Tengjast jafnvel sínu íþróttafélagi á ný, verða félagsmenn og gerast fyrirmynd fyrir yngri kynslóðir. Einnig er hægt að virkja eldra fólk til sjálfboðavinnu tengt alls kyns viðburðum innan íþróttafélagsins. Sem dæmi í miðasölu, gæslu, hella upp á kaffi, grilla hamborgara og fleira.

Íþróttafélög hafa annars vegar aðstöðu, svo sem íþróttahús, hallir og útileikvanga. Á morgnana eða um hádegisbil væri hægt að nýta auða glugga í stundatöflu fyrir eldra fólk það er ef mannvirkin standa hvort sem er tóm, eins og tíðkast oft. Hins vegar menntað fagfólk sem vilja ef til vill auka starfshlutfall sitt og taka þjálfun eldra fólks að sér eða jafnvel væri hægt að búa til nýtt stöðugildi innan íþróttafélagsins.

Félagslegi þátturinn er gríðarlega mikilvægur. Með því að æfa í hópi og örva félagsleg tengsl er gjarnan hægt að draga úr einangrun og styrkja andlega líðan. Hreyfingin sem á sér stað er oftar en ekki bónus því spjallið og kaffisopinn eftir æfingar getur gjarnan verið hápunktur dagsins. Því er nauðsynlegt að skapa jákvætt andrúmsloft sem smitar út frá sér í íþróttafélagið.

 

5.5 Heilsugæslan

Á heilsugæslunni er unnið fjölbreytt starf af læknum, hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum. Eldra fólk sækir gjarnan grunnþjónustu sína á heilsugæsluna og því er mikilvægt að leggja áherslu á samvinnu í forvörnum með heilsugæslunni. Til heilsugæslunnar berast alls kyns erindi og í mörgum tilfellum beinir heilsugæslan fólki áfram í viðeigandi farveg, svo sem í endurhæfingu, á sjúkrahús eða til sérfræðinga. Hreyfiseðill er meðferðarúrræði við sjúkdómum eða einkennum þeirra sjúkdóma sem vitað er að regluleg hreyfing getur haft umtalsverð áhrif á. Læknir vísar einstaklingnum áfram til samhæfingaraðila svo sem sjúkraþjálfara sem hittir viðkomandi og sett eru fram markmið og útbúin hreyfiáætlun[4]. Fyrir slíkt meðferðarúrræði gæti verið mikill hagur í því að heilsugæslan væri vel upplýst um starfandi hreyfiúrræði í sérhverju sveitarfélagi til að geta beint eldra fólki enn frekar áfram. Sem og að eldra fólk sé hvatt af heilbrigðisstarfsfólki til að stunda hreyfingu til að stuðla að líkamlegri, andlegri og félagslegri vellíðan.

 

5.6 Önnur heilsueflandi starfsemi

Í mörgum sveitarfélögum er boðið upp á hreyfiúrræði fyrir eldra fólk, sem dæmi er víða gönguhópar og sundtímar. Mikilvægt er að vera í samvinnu við önnur hreyfiúrræði í sérhverju sveitarfélagi, þannig að sem flestir séu meðvitaðir um hvaða hreyfing sé í boði og allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi. Þá er einnig kostur að geta unnið saman að heilsueflingu og deilt á milli alls kyns fróðleik, því þegar öllu á botninn er hvolft eru allir að vinna að sama markmiði er kemur að auknu hreysti og vellíðan eldra fólks. Þá getur verið árangursríkt að aðilar fari að tala meira saman og vinna meira saman.

6. Ávinningur 

Ávinningur reglulegrar hreyfingar og aukis heilsulæsis getur verið heilsufarslegur og fjárhagslegur, fyrir einstaklinginn, ríkið og samfélagið í heild. Til að mynda getur hreyfing verið góð forvörn, bæði andlega, líkamlega og félagslega. Með því að stunda reglubundna hreyfingu má draga úr kvíða, þunglyndi, einmannaleika, byltuhættu, sjúkra- og lyfjakostnaði og seinka innlögn á dvalar- og hjúkrunarheimili. Þar með aukast líkur á að eldra fólk geti búið lengur í heimahúsum. 

Heimildir

[1] Embætti landlæknis, „Heilsueflandi samfélag“ (2018). https://www.landlaeknir.is/heilsa-og-lidan/verkefni/item28551/Heilsueflandi-samfelag

[2] Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, „Stefna Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni“ (2020). https://www.feb.is/inc/uploads/2020/09/Stefna.pdf

[3] Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, „Íþróttahéruð“. https://isi.is/sambandsadilar/ithrottaherud/

[4] Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, „Hreyfing hefur áhrif á heilsu og líðan“. https://www.heilsugaeslan.is/thjonusta-stodvanna/hreyfisedlar/

bottom of page