top of page

HREYFISEÐLAR Hreyfiseðill er úrræði sem læknir skrifar upp á á sama hátt eins og um lyfseðil væri að ræða- nema skrifað er upp á ástundun hreyfingar í stað inntöku lyfja, þó hreyfingin geti einnig verið hluti af meðferð þar sem lyf koma við sögu. Algengast er að læknir skrifi upp á hreyfiseðil vegna ákveðinna sjúkdóma eða sjúkdómseinkenna þar sem rannsóknir hafa ítrekað sýnt fram á að hreyfing sé æskilegur og jafnvel bráðnauðsynlegur hluti af meðferð. Sem dæmi þá hefur ástundun hreyfingar sýnt góðan árangur við þunglyndi, kvíða, hjartasjúkdómum, háþrýstingi, verkjum, o.fl. Jafnvel þó þekkingin sé til staðar þá vitum við flest hve erfitt það getur verið að koma sér af stað í hreyfingu, eða viðhalda henni. Það getur orðið enn erfiðara þegar ýmiss konar sjúkdómseinkenni svo sem depurð eða verkir stöðva löngunina. Með hreyfiseðlinum ávísar læknir á viðtal til hreyfistjóra, sem vinna nú á nánast öllum heilsugæslustöðvum landsins. Í viðtalinu, sem að jafnaði er um klukkustund að lengd, fer hreyfistjórinn í gegnum heilsufarssögu, hreyfivenjur, sjúkdómseinkenni og áhugahvöt einstaklings – það er hversu tilbúinn hann er til að breyta hreyfivenjum sínum og á hvaða hátt megi hjálpa honum við það. Í samráði við skjólstæðing er farið yfir markmið að hreyfiástundun, með tilliti til áhugasviðs og ráðlegginga um magn og ákefð hreyfingar í samræmi við einkenni og sjúkdóm skjólstæðings. Í sameiningu er sett upp hreyfiáætlun, gjarnan til þriggja eða sex mánaða. Á þeim tíma skráir skjólstæðingur niður alla hreyfingu sem hann stundar og hreyfistjórinn veitir aðhald og hvatningu á tímabilinu með tölvupóstsamskiptum og símtölum. Að loknu hreyfiseðilstímabili fær læknir senda skýrslu um framgang hreyfingarinnar og er algengt að skjólstæðingur eigi þá pantaðan tíma hjá lækni, til dæmis til að meta árangur út frá heilsufarsmælingum sem hann framkvæmir (t.d. mæla blóðþrýsting, fá blóðprufur) eða fara yfir næstu markmið í samráði við skjólstæðing og hreyfistjóra Fyrir hverja er hreyfiseðill? Hreyfiseðill getur hentað öllum sem hafa ákveðinn sjúkdóm, byrjanda sjúkdómseinkenni eða vilja vinna að því að koma í veg fyrir þróun einkennanna. Getur þetta átt við um: Þunglyndi, kvíða og depurð Hækkaðan blóðþrýsting og háþrýsting Hækkaðar blóðfitur, hækkaðan blóðsykur og sykursýki Langvinna verki, gigt, síþreytu Ofþyngd, offitu, efnaskiptasjúkdóma Beinþynningu Hjarta- og lungnasjúkdóma Hvað kostar hreyfiseðill? Skjólstæðingur greiðir komugjald í viðtalinu við hreyfistjórann. Notkun á hreyfiseðli veitir ekki fjárhagslegan stuðning við hreyfiúrræði eins og aðgang að líkamsræktarstöð. Flestir fá ráðleggingu um að stunda hreyfingu sem er ódýr eða kostar ekkert, eins og sund, sundleikfimi og göngur. Hvernig get ég nýtt þetta úrræði? Ef þú telur að hreyfiseðill henti þér og hvetji þig áfram til að ná betur tökum á heilsunni getur þú leitað til heimilislæknis á næstu heilsugæslustöð / heilbrigðisstofnun. Það er sama á hvaða getustigi við erum eða reynslu við höfum af hreyfingu – það er aldrei of seint að byrja. Hreyfistjórar eru sjúkraþjálfarar sem hafa umfangsmikla þekkingu á því hvernig hreyfing nýtist sem meðferð við sjúkdómseinkennum, hvernig skuli auka álag hægt og rólega eða bregðast við ef einkenni versna í samráði við aðra heilbrigsstarfsmenn heilsugæslustöðvanna. Sjá grein inná www.heilsanokkar.is

HVERNIG FORÐUMST VIÐ MATARSÝKINGAR? Hér koma nokkur ráð til að fyrirbyggja matarsýkingar. Heilræði gegn matarsjúkdómum Algengustu ástæður matarsjúkdóma eru: Léleg hitun Hæg kæling Að matur sé geymdur við of hátt hitastig Lélegt hreinlæti Nokkur mikilvæg atriði má hafa í huga til að koma í veg fyrir slíkt, eins og að: Þvo alltaf hendurnar áður en matreiðsla hefst eða við upphaf máltíða. Þvo alltaf hendurnar á milli þess að ólík matvæli eru meðhöndluð. Þvo alltaf hendurnar eftir salernisferðir. Þvo alltaf hendurnar eftir bleyjuskipti, umönnun gæludýra og vinnu með hrátt kjöt. Setja vatnsheldan plástur á sár á höndum eða nota vatnshelda hanska við matreiðslu ef eru með sár. Ef nokkur möguleiki er á, útbúið ekki mat fyrir aðra ef eruð með magapest eða hálsbólgu. Ólík matvæli mega ekki snertast þegar eru hrá, dæmi: salat og hrátt kjöt. Þurrka blóðvatn frá kjöti og kjúklingum upp með eldhúspappír. Nota ávallt hrein áhöld. Mikilvægt er að þrífa ætíð hnífa og skurðarbretti þegar skipt er úr einni gerð hráefna yfir í aðra (eða nota annað skurðarbretti og hníf). Spáum líka í áhöldin í eldhúsinu, borðtuskuna og viskastykkið: Borðtuska getur breyst í bakteríubombu! Þvoum hana við a.m.k. 60°C eða leggjum í klór. Skiptum oft um borðtusku og viskastykki. Notum aldrei á gólfið. Eldhúspappír hentar oft í stað tusku. Þvoum hnífa og skurðarbretti oft og höldum eldhúsborði hreinu. Þrífum regulega ofnhanskana eða skiptum þeim út fyrir nýja. Hitastig og ísskápurinn Geymum kælivöru við 0-4°C, því þá fjölgar bakteríum hægt. Matreiðsla og upphitun þarf að ná 75°C, til að drepa bakteríur. Höldum mat heitum við a.m.k. 60°C, þá geta bakteríur ekki fjölgað sér. Hvað á að gera við afgangana? Þegar kæla á niður afganga er best að setja matinn í smærri ílát svo kælingin gangi hraðar fyrir sig. Góð regla er að kæla matinn aftur í síðasta lagi tveimur tímum eftir að var settur á matarborðið. Heimild: Matvælastofnun Sjá grein inná www.heilsanokkar.is

bottom of page