top of page

1. uM VERKEFNIÐ BJARTUR LÍFSSTÍLL

EFNISYFIRLIT

1. Uppspretta verkefnisins 
2. Bjartur lífsstíll 
3. Markmið 
4. Verkfærakista Bjarts lífsstíls
5. Tengiliðir og samvinna

1. Uppspretta verkefnisins 

Í janúar 2021 skilaði starfshópur, skipaður Heilbrigðisráðherra, skýrslu með tillögum um fyrirkomulag samstarfsverkefna í heilsueflingu eldra fólks með það að markmiði að gera eldra fólki kleift að búa í heimahúsum eins lengi og kostur er.

 

Í kjölfar skýrslunnar lagði Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið til styrk til Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og Landssamband eldri borgara (LEB). Styrkurinn var nýttur til að ráða sinn hvorn starfsmanninn fyrir samtökin tvö og setja af stað sameiginlegt verkefni sem stuðlar að heilsueflingu eldra fólks. Starfsmaður á vegum ÍSÍ er Margrét Regína Grétarsdóttir íþróttafræðingur, og starfsmaður á vegum LEB er Ásgerður Guðmundsdóttir sjúkraþjálfari og íþróttakennari.

 

Störf verkefnastjóra er að aðstoða sveitarfélög um land allt við að innleiða heilsueflingu til framtíðar. Í fyrsta lagi er lögð áhersla á námskeið, fræðslu og annan faglegan stuðning til þjálfara eftir því sem við á og annarra sem koma að heilsueflingu eldra fólks. Í öðru lagi er lögð áhersla á skipulagða þjálfun og aukið heilsulæsi hjá fólki 60 ára og eldra með tilliti til hreyfingar, næringar og annarra þátta sem geta aukið heilsu og vellíðan þeirra. Í þriðja lagi er lögð áhersla á þverfaglega samvinnu innan sérhvers sveitarfélags.

Snemma í ferlinu var verkefninu gefið nafnið Bjartur lífsstíll, með það að leiðarljósi að hreyfing verði að lífsstíl hjá eldra fólki. Markhópur verkefnisins Bjartur lífsstíll er 60+ af þeirri ástæðu að félög eldri borgara eru opin öllum einstaklingum 60 ára og eldri en einnig eru þau opin mökum þeirra þrátt fyrir að þeir hafi ekki náð 60 ára aldri.

 

 

2. Bjartur lífsstíll 

Það skal sérstaklega tekið fram að verkefnið Bjartur lífsstíll er ekki hreyfiúrræði út af fyrir sig. Til að taka allan vafa þá er það heldur ekki hugsað sem samkeppni við hreyfiúrræði sem eru nú þegar til staðar. Bjartur lífsstíll er einskonar verkfærakista fyrir þau sveitarfélög sem sjá þörfina fyrir aðstoð, líkt og að búa til nýtt hreyfiúrræði eða efla það góða starf sem nú þegar er í gangi.

Hlutverk verkefnastjóra er að gera stöðuyfirlit á hreyfingu sem er í boði fyrir eldra fólk á landsvísu, skipuleggja fundi og mynda stýrihópa með tengiliðum er koma að heilsueflingu eldra fólks og vekja athygli á mikilvægi þess að bjóða upp á hreyfingu fyrir eldra fólk.

 

3. Markmið 

  • Veita þjálfurum og öðrum sem koma að heilsueflingu eldra fólks faglegan stuðning.
     

  • Stuðla að betri lýðheilsu eldra fólks á landsvísu með því að auka heilsulæsi í gegnum hreyfingu og fræðslu.
     

  • Að varanlegt hreyfiúrræði standi öllu fólki 60 ára og eldra til boða í helstu byggðarkjörnum.

4. Verkfærakista Bjarts lífsstíls

Hlutverk verkfærakistunnar er að veita aðgang að efni og gögnum sem styrkir þjálfara og aðra sem koma að heilsueflingu eldra fólks. Innihaldsefni sem er að finna inn á www.bjartlif.is er sem dæmi; hvað þarf að hafa í huga varðandi þjálfun eldra fólks, innleiðing á nýju hreyfiúrræði, hvernig má nýta mismunandi aðstöðu og innviði sveitarfélagsins, framkvæmd mælinga, hvernig má auka heilsulæsi með fræðslu og fleira.

Þá er heimasíða Bjarts lífsstíls hugsuð sem einskonar upplýsingamiðstöð fyrir alla sem hafa gagn af málefnum er tengjast heilsueflingu eldra fólks. Í grófum dráttum heldur heimasíðan utan um nokkra þætti. Í fyrsta lagi yfirlit yfir hreyfingu sem er í boði á landsvísu eftir póstnúmerum. Grundvöllur fyrir upplýsingar um starfandi hreyfiúrræði er afar mikilvægur og þarf að vera bæði sýnilegur og aðgengilegur svo að eldra fólk hafi tækifæri til að stunda hreyfingu í sínu nærumhverfi. Í öðru lagi eru gögn og efni framsett í fjölbreyttum handbókum sem skiptast í þrjá flokka; fyrir þjálfara, fyrir stýrihópa sveitarfélaga og fyrir 60+. Hver flokkur afmarkar fræðsluefni og annan faglegan stuðning sem á við um tilheyrandi flokk.

Handbækur fyrir þjálfara: Leggur áherslu á að bæta öryggiskennd viðkomandi til að sjá um eða taka að sér hreyfingu fyrir eldra fólk. Víða er vöntun á starfsfólki þrátt fyrir menntun og fyrri störf. Með handbókunum er hægt að afla sér upplýsinga, fræðast og nýta efni til þjálfunar á einfaldan máta.

Handbók fyrir stýrihópa sveitarfélagsins: Leggur áherslu á fræðslu varðandi utanumhald og rekstur hreyfiúrræða sem og leiðavísir með gátlistum sem mun koma sér að góðum notum ef hugur er á að setja nýtt hreyfiúrræði á laggirnar eða efla starfið sem fyrir er.

Handbækur fyrir 60+: Leggur áherslu á fræðslu um heilsutengd málefni þar sem farið er m.a. inn á hreyfingu, næringu, svefn og rétta líkamsbeitingu sem er aðlagað að markhópnum. Einnig er að finna æfingamyndbönd og heimaæfingar sem eldra fólk getur fylgt eftir.

Allt efni inn á www.bjartlif.is má nýta endurgjaldslaust. Fyrir hönd ÍSÍ og LEB vona verkefnastjórar að verkfærakista Bjarts lífsstíls geti nýst sem flestum og orðið hvatning fyrir sveitarfélög til að efla sitt starf fyrir eldra fólk.

 

5. Samstarfsaðilar 

Áhersla er lögð á þverfaglega samvinnu innan sérhvers sveitarfélags, það er að samvinna geti orðið milli sveitarfélagsins, íþróttahreyfingarinnar, félags eldri borgara og heilsugæslunnar, svo dæmi séu nefnd. Æskilegt er að aðilar sem koma að heilsueflingu í samfélaginu myndi stýrihóp. Það gætu sem dæmi verið starfsmenn sveitarfélagsins, svo sem úr velferðarráði, öldungaráði, íþrótta-og tómstundaráði, félagsþjónustu, dvalarheimilum, íþróttakennarar, sjúkraþjálfarar, íþróttafræðingar, þjálfarar og aðrir sem átt gætu í hlut. Þá er einnig æskilegt að vera í samvinnu við líkamsræktarstöðvar og íþróttamannvirki eins og sundhallir í sér hverju sveitarfélagi til að skapa jákvætt umhverfi og efla varanlegt fyrirkomulag heilsueflingar.

 

Það er samfélagsleg ábygð okkar allra að fylgja því eftir að núverandi hreyfiúrræði vaxi og dafni, og sjá til þess að önnur verði til sem munu þrífast til langframa. 

MYNDBAND UM VERKEFNIÐ BJARTUR LÍFSSTÍLL

bottom of page